Jákvætt þungungarpróf hjá körlum?

Jan 09, 2014 No Comments by

Að undanförnu hefur verið umræða í netheimum um að karlar geti notað þungunarpróf ætluðum konum til að athuga hvort þeir séu með krabbamein í eistum.  Þessi umræða er svo sem ekki ný af nálinni, en fyrir 2 árum birtist færsla á samskiptavefnum Reddit frá notanda sem sagðist hafa prófað að pissa á þungunarpróf fyrrum kærustu sinnar og sér til mikillar undrunar reyndist prófið vera jákvætt.  Einhverjir lesendur Reddit bentu honum á möguleikann að hann gæti verið með eistnakrabbamein og ráðlögðu honum að leita læknis.  Og mikið rétt, hann reyndist vera með eistnakrabbamein!  En hvernig stendur á þessu?

Þungunarpróf mæla hormónið β-HCG (human chorionic gonadotropin) sem er framleitt í fylgju, en þessi framleiðsla hefst mjög snemma á meðgöngu og þungunarprófin verða því mjög fljótt jákvæð.  Ástæða þess að þungunarpróf geta verið jákvætt hjá körlum með krabbamein í eistum er sú að sum eistnakrabbamein gefa einnig frá sér þetta sama hormón, sem skilst út í þvagið og þungunarprófið getur þar með orðið jákvætt.  En er þetta þá ekki kjörin leið til að skima fyrir krabbameini í eistum?  Málið er því miður ekki svona einfalt.

Það eru ekki öll eistnakrabbamein sem framleiða β-HCG og þau myndu því ekki valda jákvæðu þungunarprófi.  Í þeim tilvikum þegar krabbameinið framleiðir β-HCG gæti maður hugsað sér að nota þungunarpróf til að fylgjast með hugsanlegri endurkomu sjúkdómsins eftir meðferð.  Gallinn er hins vegar sá að þungunarprófin er misjafnlega næm á β-HCG, og þau mæla heldur ekki aðra æxlisvísa sem fylgst er með, og því þarf hvort eð er að taka blóðprufur, sem eru líka næmari á β-HCG en þvagprufurnar.

Þó svo að eistnakrabbamein sé eitt algengasta krabbameinið hjá ungum körlum, þá er það í raun ekkert sérstaklega algengt krabbamein.  Nýgengið hér á landi er um 6,2 tilfelli á hverja 100.000 karla og árlega greinast um 10-12 karlar með eistnakrabbamein.  Gera má ráð fyrir að um helmingur þeirra sé með krabbamein sem gefi frá sér β-HCG eða um 5-6 á ári.  Þar sem eistnakrabbamein vex yfirleitt frekar hratt má gera ráð fyrir að skima þyrfti 2-3 sinnum á ári ef tekin væri upp skipleg leit að sjúkdómnum.    Ef skimað væri hjá körlum á aldrinum 20-65 væri því verið að gera um 250.000 próf á ári, með árlegum kostnaði upp á u.þ.b. 300 milljónir króna á ári (Clearblue þungunarpróf kostar um 1.300 krónur/stk) við leit að 5-6 tilfellum, þ.e. kostnaðurinn væri um 50-60 milljónir á hvert tilfelli, sem er margfaldur kostnaður við meðferð og eftirlit.  Neikvætt próf myndi svo veita falskt öryggi (neikvætt próf myndi ekki útiloka sjúkdóm) og því hugsanlega seinka greiningu eistnakrabbameins hjá einstaklingum með neikvætt próf.  Afleiðingar þess gætu verið að þeir myndu greinast með lengra genginn sjúkdóm.  Sem betur fer er hægt að lækna flesta sem greinast með krabbamein í eistum, jafnvel þó þeir séu með langt genginn sjúkdóm.  Skimun á þennan hátt væri í raun að gera ógagn og þannig vinna gegn tilgangi sínum, með tilheyrandi kostnaði og þjáningum.

Einfaldari, öruggari og mun ódýrari skimun er að fræða karla um mikilvægi þess að þreifa eistu sín reglulega, en eistnakrabbamein byrjar oftast sem verkjalaus fyrirferð/hnútur í eistanu.  Karlar sem þreifa eistu sín og verða varir við hnút í eista ættu að leita læknis.

Almennt efni

About the author

Eiríkur Orri Guðmundsson er menntaður þvagfæraskurðlæknir og starfar á þvagfæraskurðdeild Landspítala – Háskólasjúkrahúss. Hann er einnig með læknastofu í Læknastöðinni Glæsibæ, Álfheimum 74, 108 Reykjavík. Hægt er að panta viðtalstíma í síma 535-6800.
No Responses to “Jákvætt þungungarpróf hjá körlum?”

Leave a Reply