Krabbamein í eistum

Eistnakrabbamein er sjúkdómur þar sem illkynja frumur (krabbameinsfrumur) myndast í vefjum eins eða beggja eistna.

Eistun eru tveir egglaga kirtlar í pungnum. Eistun hanga þar í eistnakólfi, sem einnig inniheldur sáðgöng, æðar og taugar sem liggja til eistna. Eistun eru kynkirtlar karla og framleiða kynhormónið testósterón og sáðfrumur. Kímfrumur (germ cells) í eistum framleiða óþroskaðar sáðfrumur sem síðan ferðast gegnum gangakerfi inn í eistnalyppur (sekkir sem liggja utan á eistunum) þar sem þær þroskast og eru geymdar.

Nær öll eistnakrabbamein eiga upptök sín í kímfrumum. Megintegundirnar eru tvær og kallast seminoma og non-seminoma. Þessar tvær tegundir þroskast og dreifa sér á ólíkan hátt og þarfnast ólíkrar meðferðar. Non-seminoma hafa tilhneigingu til að vaxa hraðar og dreifa sér fyrr. Seminoma eru næmari fyrir geislameðferð. Eistnakrabbamein sem innihalda bæði seminoma og non-seminoma eru meðhöndluð sem non-seminoma.

Eistnakrabbamein er algengasta krabbameinið hjá körlum á aldrinum 20-35 ára.

Fyrra heilsufar getur haft áhrif á myndun eistnakrabbameins

Allt sem eykur líkur á því að einstaklingur fái tiltekinn sjúkdóm kallast áhættuþættir. Það að hafa tiltekinn áhættuþátt þarf ekki að þýða að viðkomandi fái sjúkdóminn, og það að hafa ekki þennan tiltekna áhættuþátt útilokar ekki að viðkomandi geti fengið sjúkdóminn. Einstaklingar sem telja sig vera í hættu á að fá krabbamein ættu að ræða það við lækni. Áhættuþættir fyrir því að fá eistnakrabbamein eru m.a.:

  • Að hafa haft eista sem ekki gekk sjálft niður.
  • Að eistun hafi á einhvern hátt þroskast óeðlilega.
  • Fyrri saga um krabbamein í eistum.
  • Fjölskyldusaga um eistnakrabbamein (einkum ef faðir eða bróðir hafa fengið sjúkdóminn).

Einkenni eistnakrabbameins geta m.a. verið að eistað stækki eða að fá óþægindi í punginn

Stækkað eista og óþægindi í pung geta verið einkenni eistnakrabbameins. Aðrir sjúkdómar geta þó valdið sömu einkennum. Ef eftirfarandi einkenni eru til staðar er rétt að leita læknis:

  • Verkjalaus fyrirferð eða hnútur í eista
  • Breyting á eistanu (þreifast öðruvísi en venjulega)
  • Þyngsli eða verkur í neðri hluta kviðar eða í nára
  • Skyndileg vökvasöfnun í pungnum
  • Óþægindi eða verkur í eista eða pung

Eistnakrabbamein er greint með læknisskoðun, myndgreiningu og blóðprufum

Eftirfarandi rannsóknir geta verið notaðar við greiningu eistnakrabbameins:

  • Líkamsskoðun: Líkaminn er skoðaður og leitað að sjúkdómseinkennum, s.s. hnútum eða öðru óeðlilegu. Athugað er hvort hnútar, fyrirferðir, bólgur eða verkir séu í eistum. Einnig er spurt um fyrra heilsufar.
  • Ómskoðun: Rannsókn þar sem hátíðnihljóðbylgjur eru notaðar til að framkalla mynd af líkamsvefjum.
  • Æxlisvísar: Blóð er rannsakað og tilvist ákveðinna efna, sem krabbamein geta framkallað, er könnuð og mæld. Ákveðin efni tengjast ákveðnum krabbameinum og kallast þá æxlisvísar. Eftirfarandi æxlisvísar eru kannaðir við greiningu eistnakabbameins:
    • Alfa-fetóprótein (AFP)
    • Beta-human chorionic gonadotropin (β-hCG)
    • Lactate dehydrogenase (LDH)
      Æxlisvísar eru mældir áður en eistað er fjarlægt eða sýni tekið til að greina eistnakrabbamein.
  • Eistnabrottám og sýnataka: Skurðaðgerð þar sem eistað er fjarlægt í gegnum skurð í nára. Vefjasýni úr eistanu er síðan smásjárskoðað og leitað að krabbameinsfrumum. (Ekki er skorið í gegnum punginn, því ef krabbamein er til staðar er talin aukin hætta á að það geti þá borist í pung og eitla). Ef krabbamein reynist vera til staðar er tegund æxlisins (seminoma eða non-seminoma) höfð til hliðsjónar þegar tekin er ákvörðun um frekari meðferð.

Ákveðnir þættir hafa áhrif á horfum (líkur á bata) og meðferðarúrræði

Horfur (líkur á bata) og meðferðarúrræði ráðast af eftirfarandi atriðum:

  • Stigun krabbameinsins (hvort það sé bundið við eistað eða breiðst út um líkamann, og hvort æxlisvísar séu hækkaðir).
  • Tegund krabbameinsins
  • Stærð æxlisins
  • Fjöld og stærð eitla aftan við lífhimnu

Eistnakrabbamein er oftast læknanlegur sjúkdómur.

Meðferð við eistnakrabbameini getur valdið ófrjósemi

Ákveðnar meðferðir við eistnakrabbameini getur valdið ófrjósemi sem getur verið varanleg. Sjúklingar sem gætu viljað eignast börn ættu að láta frysta sæði áður en meðferð er hafin.

Eftir að eistnakrabbamein hefur verið greint eru ýmsar rannsóknir gerðar til að athuga hvort krabbameinið hafi borist út fyrir eistað.

Ferlið, þar sem athugað er hvort krabbameinið hafi borist út fyrir eistað, kallast stigun. Upplýsingar sem fást út stigun segja til um á hvaða stigi sjúkdómurinn er. Mikilvægt er að ákvarða stigið til að geta skipulagt þá meðferð sem þarf að veita. Eftirfarandi rannsóknir geta verið notaðar við stigun:

  • Röntgenmynd af lungum
  • Tölvusneiðmynd: Rannsókn þar sem fjöldi röntgenmynda, teknum frá mismunandi sjónarhornum, er notaður til að fá fram nákvæma mynd af líffærum. Tölva er notuð við að útbúa myndirnar. Skuggaefni er stundum gefið í æð til að auka myndgæðin.
  • Eitlabrottnám úr kviðarholi: Skurðaðgerð þar sem eitlar í kviðarholi eru fjarlægðir og skoðaðir undir smásjá til að leita að krabbameini.
  • Eistabrottnám og sýnataka: Skurðaðgerð þar sem eistað er fjarlægt í gegnum skurð í nára. Vefjasýni úr eistanu er síðan smásjárskoðað og leitað að krabbameinsfrumum. (Ekki er skorið í gegnum punginn, því ef krabbamein er til staðar er talin aukin hætta á að það geti þá borist í pung og eitla). Ef krabbamein reynist vera til staðar er tegund æxlisins (seminoma eða non-seminoma) höfð til hliðsjónar þegar tekin er ákvörðun um frekari meðferð.
  • Æxlisvísar: Æxlisvísarnir AFP, β-hCG og LDH (sjá ofar) eru mældir í blóði sjúklings. Æxlisvísarnir eru svo mældir aftur eftir að eistað hefur verið fjarlægt, m.a. sem hluti af stigunarferli en einnig til sjá hvort æxlið hafi verið fjarlægt að fullu. Æxlisvísar eru einnig mældir við eftirlit til að sjá hvort æxlið hafi snúið aftur.

Krabbamein getur breiðst út á þrjá mismunandi vegu:

  • Í gegnum vefi: Krabbameinið vex inn í nálæga vefi og líffæri
  • Í gegnum eitla: Krabbameinið vex inn í sogæðar og krabbameinsfrumur berast þar til eitla annars staðar í líkamanum.
  • Með blóði: Krabbameinið vex inn í bláæðar og háræðar og krabbameinsfrumur berast þar til annarra staða í líkamanum.

Þegar krabbameinsfrumur yfirgefa frumæxlið og berast með sogæðum eða blóði á aðra staði í líkamanum geta önnur æxli myndast þar. Slík æxli kallast meinvörp. Meinvörpin eru af sömu tegund og frumæxlið.

Meðferðarúrræði við eistnakrabbameini

Skurðaðgerð

Skurðaðgerð þar sem eistað er fjarlægt (eistnabrottám) getur verið hluti af greiningu og stigun. Æxli sem myndast hafa annars staðar í líkamanum (meinvörp) er stundum hægt að fjarlægja með skurðaðgerð.

Þó svo að æxli virðist hafa verið fjarlægt að öllu leyti í skurðaðgerðinni er sjúklingum stundum ráðlögð geisla- eða lyfjameðferð eftir aðgerðina til að drepa þær frumur sem hugsanlega hafa orðið eftir í líkamanum).

Geislameðferð

Geislameðferð er krabbameinsmeðferð þar sem háorku-röntgengeislum eða annars konar geislun er beitt til að drepa krabbameinsfrumur.

Krabbameinslyfjameðferð

Í krabbameinslyfjameðferð eru gefin lyf sem stöðva vöxt krabbameinsfruma, annað hvort með því að drepa frumurnar eða hindra þær í því að skipta sér. Þegar krabbameinslyf eru gefin um munn eða í æð berast þær með blóði til krabbameinsfruma í líkamanum. Þegar krabbameinslyf eru gefin beint í heila- og mænuvökva, líffæri eða líkamshol (t.d. Kviðarhol) hafa lyfin einkum áhrif á vöxt fruma á því svæði. Lyfjagjöfin ræðst af því hvar æxlið/meinvörpin eru til staðar og hvers kyns æxli er um að ræða.

Eftirlit að lokinni meðferð

Að lokinni skurðaðgerð og hugsanlegri viðbótarmeðferð (geislameðferð og/eða krabbameinslyfjameðferð) tekur við eftirlit í nokkur ár. Tilgangur eftirlitsins er fyrst og fremst að greina hvort krabbameinið taki sig upp að nýju, en einnig að fylgjast með hugsanlegum aukaverkunum af þeirri meðferð sem veitt var. Líkurnar á því að krabbameinið taki sig upp að nýju eru yfirleitt litlar, en þær eru mestar fyrstu tvö árin eftir að meðferð lýkur og því er eftirlitið þéttast fyrstu tvö árin. Að þeim loknum er eftirlitið ekki jafn þétt og því lýkur svo að jafnaði eftir tíu ár.

Eftirfarandi rannsóknir eru nýttar við eftirlit eftir meðferð við eistnakrabbameini:

  • Myndgreiningarrannsóknir: Fyrstu tvö árin eru myndgreiningar gerðar á 3-4 mánaða fresti. Við myndgreiningarnar er leitað að merkjum um endurkomu krabbameinsins, s.s. stækkandi eitlum eða hnútum í lifur eða lungum. Eftirfarandi myndgreindingaraðferðum er beitt:
    • Tölvusneiðmynd – Rannsókn þar sem fjöldi röntgenmynda, teknum frá mismunandi sjónarhornum, er notaður til að fá fram nákvæma mynd af líffærum. Tölva er notuð við að útbúa myndirnar. Skuggaefni er stundum gefið í æð til að auka myndgæðin.
    • Segulómun – Rannsókn þar sem sterku segulsviði og útvarpsbylgjum er beitt til að fá fram nákvæma mynd af líffærum. Skuggaefni er stundum gefið í æ til að auka myndgæðin.
    • Ómskoðun – Rannsókn þar sem hljóðbylgjum er varpað inn í líkamshluta og endurvarp þeirra notað til að fá fram mynd af vefjum og líffærum.
    • Röntgenmynd af lungum – Hefðbundin röntgenmyndataka af lungum.
  • Blóðrannsóknir – Blóðprufur eru teknar með reglulegu millibili og mælt hvort magn tiltekinna æxlisvísa í blóði hafi aukist. Þetta nýtist best þegar upphaflega æxlið gaf frá sér æxlisvísa.